Lausnir frá rótinni - sjálfbært skipulag - andskipulag

Tilgangur andskipulags er að snúa hlutunum á hvolf og hræra duglega í skálinni. Því stundum er nauðsynleg að snúa hlutunum á hvolf til að unnt sé að móta bestu lausnirnar. Sá heimur sem flest okkar lifa og hrærast í hefur svo sannarlega gott af því að vera snúið duglega á hvolf.

Andskipulag mun fjalla um hinn heillandi heim sem er hið byggða umhverfi í kringum okkur. Reyna að sýna hlutina í nýju ljósi og nýju samhengi. Ef guð og lukka lofar gæti eitthvað jákvætt komið út úr slíkri hræru. Hugsanlega betri borg og betri bæir til að lifa og búa í.

Andskipulag fjallar um hið byggða umhverfi út frá þeirri meginforsendu að borgir og byggðir séu best skilgreindar sem hið efnislega umhverfi sem til verður þegar á sér stað hagfræðileg landfræðileg samsöfnun starfa. Slík kerfi kallast upp á enska tungu 'agglomeration economies', og líkt og önnur hagræn fyrirbæri þá eru líkur til þess að minna skipulag sé hugsanlega betra og æskilegra en meira. Margbreytileiki og flækjustig þess háttar kerfa geri það að verkum að miðstýring þróunarinnar sé líklegt til að gera meiri skaða en ávinning.

En þótt minna skipulag sé hugsanlega betra en meira þá sé, líkt og í öðrum hagfræðilegum fyrirbærum, mikilvægt að leikreglurnar séu til staðar og að þær séu skýrar. Til að fá bestu og réttlátustu niðurstöðuna, og þar af leiðandi 'skipulag' verði að ganga út frá þeirri meginreglu að öllum óæskilegum ytri áhrifum, eða því sem kallast 'externalities' á enska tungu, af hvers kyns samskiptum tveggja eða fleiri aðila sé haldið í lágmarki.

Einungis þannig fáist það form og sú virkni borgarinnar sem telja má þá bestu, því þannig verði réttindum hvers og eins borgið sem best má og hverjum og einum leyft að elta þær vonir og þrár sem umgjörðin veitir honum.

Lesendur eru hvattir til að nota wikipedia til að kynna sér ýmis hugtök sem hér munu birtast, og skipta höfuðmáli í borgarskipulagi nútímans. 'Agglomeration economies' og 'externalities' eru tvö slík. 

- - - 

Andskipulag mun reyna að vera eins frábrugðið að þankagangi margra helstu hugsuða 20. aldarinnar í borgarskipulagi, sem reyndu, hver á fætur öðrum, að 'finna upp' ídealborgina, sem vitanlega þurfti að vera eins frábrugðin þeirri útkomu sem aldalöng þróun hafði mulið og mótað eftir kröftum sem ansi oft komust nálægt því að geta talist frjálsir.

Idealborgin var að mörgu leyti til staðar, en henni hafnað á altari stórra hugmynda og ofurtrú á hinum sértæku, miðstýrðu og sérhönnuðu lausnum að ofan. Lausnum, sem beitt var óspart á tuttugustu öldinni, bara til þess að reynast gallaðar og fjandsamlegar því góða í mannlegu eðli án þess að bægja frá því neikvæða svo vel var.

Hugmyndir Le Corbusier, hvers mynd birtist hér í hægra horninu, eru gott dæmi um vitfirringu 20. aldarinnar á sviði skipulags og arkitektúrs. Vitfirringu, sem tekin var víða upp sem stjórntæki opinberra aðila til að þróa heildarlausnir hins opinbera á vandamálum nútímaborgarinnar. Og með hræðilegum afleiðingum, sem víða sér ekki fyrir endann á og mun taka lungann úr 21. öldinni að leiðrétta.

- - -

Andskipulag mun fjalla um þau mál sem helst eru á döfinni og í umræðunni um þróun og framgang hins byggða umhverfis hér á litla Íslandi. Einkum verður fjallað um höfuðborgarsvæðið, sem telja má eina borgarsvæðið hér á landi, og þau mál sem þar ber hæst hverju sinni. En það verður ætíð út frá þeirri meginreglu sem hér birtist að ofan.

Þótt andskipulag sé heldur neikvætt nafn í eðli sínu, þá er tilgangurinn jákvæður. Að stuðla að jákvæðari og upplýstari umræðu um þróun hins byggða umhverfis. Því einungis þannig verða sjálfbærar breytingar, í rótinni, meðal fjöldans. Lausnirnar eiga ekki að koma að ofan, þær eiga að koma úr undirrótinni. Form og virkni borgarinnar - skipulag - á ekki að vera lausn að ofan, heldur andskipulag úr rótinni.

Andskipulag er hugsað sem gagnvirkur vettvangur, þannig að lesendur eru eindregið hvattir til að skrifa athugasemdir sínar í athugasemdakerfið. Þeir aðilar sem hér rita eru ekki upphafið og endirinn í mótun bestu lausnanna, heldur einungis uppspretta og hvatberar. Allir eru sérfræðingar í umhverfi sínu, óskum og þrám. Því erum við öll skipulagsfræðingar, og því fleiri sem leggja hausinn í bleyti því betur fást góðar og sjálfbærar lausnir.

 

Njótið heil

24. september 2007

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband