Lítið byggt í nýjum hverfum á þessu kjörtímabili

Í skipulagslegu tilliti er allt sem mælir með því að byggð verði ný hverfi í Vatnsmýrinni og í Örfirisey. Með því er saumað nýrri íbúðabyggð vestan við atvinnukjarna höfuðborgarsvæðisins, sem afmarkast af Gamla-miðbænum í vestri og Skeifunni í austri, í stað þess að sauma áfram við byggð í austurhlutanum. Gísli Marteinn hugsar þetta alveg rétt, þótt í raun megi rökræða það hvort það sé ekki frekar rekstraraðila vegakerfisins að gæta að slakri nýtingu umferðarmannvirkja sinna (þ.e. með einstefnuumferðarálagi fram og til baka), fremur en að það sé pólitískur fulltrúi borgarinnar. En þar sem rekstraraðilinn er opinber aðili með litlar heimildir til slíks eru litlar líkur á að svo verði.

Gallinn við óskir Gísla Marteins eru hins vegar þær að mörg ár og jafnvel áratugir eru í það að svæðin verði byggingarhæf svo einhverju nemi. Í Vatnsmýrinni er eitt stykki alþjóðaflugvöllur og í Örfirisey þarf að finna nokkrar milljónir rúmmetra af efni til að gera landfyllingar. Í báðum tilfellum eru mörg ár þar til unnt er að hefja stórtæka uppbyggingu. Ólíklegt er að unnt sé að gera svæðin byggingarhæf fyrr en að loknu núverandi kjörtímabili.

Sjálfstæðismenn í borginni hafa ætíð litið á Geldinganesið sem næsta aðalbyggingarsvæði borgarinnar. Það sem hefur staðið þeim áætlunum fyrir þrifum er sú staðreynd að svæðið er ekki aðgengilegt í dag, og verður það ekki fyrr en búið er að byggja Sundabraut. Sú framkvæmd lætur bíða eftir sér, vegna fjöldamargra ástæðna sem óþarfi er að rekja hér. En sjálfstæðismenn sjá það væntanlega að ekki verður hægt að hefja uppbyggingu þar næstu árin heldur. Í gær birtust fréttir þess efnis að ekki væri gert ráð fyrir fjármagni í framkvæmdir við Sundabraut á næsta ári. Það er því útilokað að unnt verði að taka hana í notkun á þessu kjörtímabili.

Það eru því allar líkur á því að kjörtímabil sjálfstæðismanna í borginni ljúki án þess að hafin verði uppbygging í nýjum hverfum, hvort sem það er vestan eða austan megin í borginni. Nema haldið verði áfram að sauma í Græna trefilinn, eins og byrjað er á með nýju hverfi í Reynisvatnsási?

Auðvitað væri best væri ef Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög létu af miðstýringu landnotkunar og seldu allt land í sinni eigu til einkaaðila. Þannig mætti skipuleggja borgina vel og örugglega, hvort sem það er Vatnsmýri, Geldinganes eða Örfirisey, með langtímamarkmið, samlegð og gæði að leiðarljósi. Skipulag sem er undirorpið duttlungum stjórnmálamanna er ætíð bundið þeirri hættu að vera dæmt á grundvelli þess hversu mörg atkvæði er hægt að krækja í með skammtímahugsjónum í skipulagi.


mbl.is Vatnsmýri fram yfir Geldinganes
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband