Ótti?

Það er erfitt að ímynda sér að hópurinn, sem mætti á málþing í kvöld, sé allur á því að halda eigi í hvert og eitt af þeim 100 húsum sem eigendum leyfist að rífa í miðbænum. Ástæðuna fyrir upphrópunum og stríðsletri er sennilega að leita í óttann við það hvaða áhrif það hafi á yfirbragð, virkni og mannlíf miðbæjarins, að láta hann ganga í gegnum svo mikla endurnýjun.

Gamli miðbærinn hefur fengið sinn skammt af illa hönnuðum og beinlínis ljótum byggingum síðustu 50 árin eða svo. En inn á milli hafa svo sem dottið inn ágætlega hannaðar nýbyggingar. Þegar þessi sami hópur dásamar Skólavörðustíginn (sem hann gerir ansi oft), þá gleymist að við hann er fjöldi nýbygginga frá síðustu 30 árum eða svo. Hann hefur það hins vegar framyfir Laugaveginn, Hverfisgötuna og önnur svæði að nýbyggingarnar - háu húsin - eru að mestu leyti saman í hnappi neðst á honum, á meðan litlu timburhúsin eru líka saman í hnappi efst. Úr verður skemmtileg harmónía. Á Laugavegi og víðar úir og grúir saman þessu tvennu, með tilheyrandi kaosi.

Það er erfitt að sjá að hópurinn fái breytt miklu. Nægilega dýrkeypt mun það reynast borginni að byggja upp horn Lækjargötu og Austurstrætis í gamalli mynd. Ef skipulaginu verður breytt aftur þýðir það skaðabótaskyldu til handa borgaryfirvöldum af margfaldri stærðargráðu á við það dæmi. Hópurinn gæti svo sem reynt að safna fé til að kaupa upp reiti sjálfur, en hann þyrfti að greiða það sömuleiðis afar dýru verði.

Hópurinn - og Reykvíkingar allir - eiga það hins vegar skilið að fá útskýringu, hálfgert umhverfismat, á því hvaða áhrif þessi mikla endurnýjun mun hafa á yfirbragð og "sjarma" miðbæjarins. Hvort tryggt verði að nýbyggingar muni standast kröfur um útlitslegan metnað og stílbragð sem hæfir miðbænum. Bæklingurinn, sem gefinn var út um árið fyrir Laugaveginn, var skref í rétta átt. Kannski þarf að útvíkka það konsept yfir allan miðbæinn og kynna betur? 


mbl.is Rætt um niðurrif í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég gæti trúað því að þessi hræðsla vegna breytinga og niðurrif sé einmitt vegna þess að fólk hræðist ekki beint hvað hverfur, heldur hvað kemur í staðinn. Byggingarstíll nútímans er ekki vinsæll hjá mörgum, og frekar kuldarlegur og ferkantaður og maður heyrir á fólki að það vilji ekki sjá meira af þessu, enda nóg komið. Það væri því bót í máli að kynna þetta betur, eins og þú segir.

Linda (IP-tala skráð) 19.12.2007 kl. 06:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband